Olíurisinn Royal Dutch Shell hefur tilkynnt að hann muni segja upp 6.500 starfsmönnum á næstunni. Eru uppsagnirnar liður í hagræðingaraðgerðum sem fyrirtækið ætlar að ráðast til þess að vega á móti lækkandi olíuverði. BBC News greinir frá þessu.

Í heildina ætlar Shell að skera niður sem nemur 4 milljörðum dala og mun hluti af þeirri fjárhæð sparast með uppsögnunum. Nú starfa 94 þúsund manns hjá fyrirtækinu víðs vegar um heiminn og verður því um 7% starfsmannafjöldans sagt upp.

Shell tilkynnti einnig að félagið hefði hagnast um 3,4 milljarða dali á síðasta ársfjórðungi sem er um 35% minni hagnaður en á sama tíma í fyrra. Lækkandi olíuverð hefur komið illa við félagið og tilkynnti það einnig niðurskurð í nýfjárfestingum um 7 milljarða dali og munu þær því nema 30 milljörðum dala í heildina á þessu ári, eða um fimmtungi minna en í fyrra.