Verð á olíu hefur farið hækkandi síðustu tvo daga, segir greiningardeild Landsbankans en olíutunnan hefur hækkað um 2% frá því á mánudag og er gengið 71,39 banaríkjadalir.

?Ein helsta ástæða hækkunarinnar sú að framboð olíu í Bandaríkjunum jókst að öllum líkindum fremur lítið í síðustu viku, meðan viðbúið er að eftirspurn fari vaxandi," segir greiningardeildin og vitnar í frétt Bloomberg.

?Þjóðhátíðardagur Bandaríkjamanna, 4. júlí, verður haldinn hátíðlegur í næstu viku, en mikil ferðalög hafa jafnan fylgt þessum tíma árs og olíunotkun aukist að sama skapi. Önnur helsta ástæðan eru tafir í flutningi olíu vegna olíuleka í skipaskurði, sem tengir olíuhreinsistöðina í Lake Charles, Louisiana við Mexíkóflóa, og hefur hindrað ferðir olíuskipa til og frá olíuhreinsistöðinni," segir greiningardeildin.

Olíuverð hefur hækkað um 22,8% frá áramótum. "Hluti þeirrar hækkunar er tilkominn vegna deilna Sameinuðu þjóðanna við Íran, vegna rannsókna þeirra á kjarnorkuvopnum. Íran er fjórði stærsti olíuframleiðandi í heimi og myndi það hafa víðtæk áhrif ef ákveðið væri að hætta útflutningi olíu þaðan. Talsmaður Írana, Hossein Elham hefur hins vegar látið hafa það eftir sér að sú aðgerð verði aðeins höfð í frammi sem síðasta úrræði," segir greiningardeildin.