Olíuverð féll skarpt í gærkvöld eftir að fregnir bárust af því að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði rekið þjóðaröryggisráðgjafa sinn, John Bolton.

Bolton hefur talað fyrir beitingu mikillar hörku gagnvart Íran, sem hefur meðal annars falist í hertum viðskiptaþvingunum, sem hefur komið í veg fyrir útflutning olíu þaðan.

Trump dró Bandaríkin út úr samningi við hið olíuríka miðausturland í maí í fyrra, sem hafði falið í sér niðurfellingu viðskiptaþvingana í skiptum fyrir að draga verulega úr kjarnorkustarfsemi sinni (hætta að auðga úran umfram 3,67% og eyða nánast öllu auðguðu úrani sem landið átti fyrir).

Samskipti Bandaríkjanna og Íran versnuðu til muna fyrr á þessu ári, svo að margir óttuðust að endað gæti í stríðsátökum. Olíuútflutningur Íran hefur nú fallið um 2 milljónir tunna á dag síðan í fyrrasumar.

Bandarískt olíuverð féll um allt að 2,2% niður í 57,3 dali á tunnuna í kjölfar tísts Trump þar sem hann tilkynnti uppsögn Bolton, að því er fram kemur í frétt CNN um málið .

Ekki liggur enn fyrir hvort uppsögn Bolton tengist Íran. Í tístinu sagðist trump vera afar ósammála mörguaf því sem Bolton hefði lagt til, og að hann væri ekki einn um það innan ríkisstjórnarinnar. Sagt hafði verið frá því nýlega að fregnir af andstöðu Bolton við fyrirhugaðan fund Trump með leiðtogum Talíbana hafi farið verulega í taugarnar á Trump, en fundinum var aflýst á laugardag.