Olíuverð féll aftur niður fyrir 30 Bandaríkjadali á tunnu í viðskiptum dagsins. Hækkanir á olíuverði sem komu undir lok síðustu viku eru nú horfnar, en verðið var orðið rúmlega 32 dalir.

Verð á Brent hráolíu er nú 29,88 dalir og verð á Texas hráolíu er nú 29,8 dalir. Olíuverð lækkaði töluvert í gær og hefur haldið lækkunum áfram það sem af er degi.

Aðalritari OPEC samtakanna, Abdalla El-Badri, hefur nú biðlað til OPEC rikjanna til að takast á við miklar verðlækkanir á olíu og að lækka framleiðslumarkið.

Leonid Fedun, varaformaður Lukoil, eins stærsta olíufyrirtækis Rússlands hefur einnig sagt að það væri tilbúið að fylgja OPEC ríkjunum í minnkun framleiðslu. Abdalla sagði að olíuframleiðsla til framtíðar væri í hættu nema ef ríki, bæði innan og utan OPEC myndu taka höndum samana og draga úr offramleiðslu á olíu.

Olíuverð hefur lækkað um 70% á 18 mánuðum, en lækkanirnar hafa leitt til verulegrar lækkunar í fjárfestingum í olíugeiranum. Þessi samdráttur í fjárfestingum gæti leitt til þess að olíufyrirtæki muni ekki geta framleitt í samræmi við eftirspurn í framtíðinni, sem mun þá leiða til verulegra verðhækkana.