Olíuverð hefur haldið áfram að lækka í dag, eftir talsverðar lækkanir í gær. Tilkynnt var um meiri birgðir í Bandaríkjunum en sérfræðingar gerðu ráð fyrir eftir lokun markaða í gærkvöldi. Þetta kemur fram á vef Wall Street Journal.

Hráolía (Crude olía) hefur lækkað niður í 40,95 dali tunnuna en sérfræðingar telja líklegt að verðið fari niður fyrir 40 dali tunnuna, sem er lægsta verðið í sex ár. Brent Norðursjávarolía stendur í 46,7 dölum á tunnuna og hefur fallið um 1% í dag.

Greiningardeild bandaríska orkumálaráðuneytisins greindi frá því í gærkvöldi að birgðir í landinu hefði aukist milli vikna, en búist var við lækkun. Birgðirnar fóru úr 453,6 milljónum tunna í síðustu viku í 456,2 milljónir í gær, sem er 2,6 milljóna tunna aukning.