*

sunnudagur, 9. ágúst 2020
Erlent 29. apríl 2019 17:41

Öll spjót standa á Boeing

Flugfélög telja að samanlagður hagnaður þeirra muni dragast saman um hundruð milljóna dala vegna kyrrsetningar 737 Max.

Ritstjórn
Ein af Boeing 737 Max 8 vélum American Airlines.
epa

Evrópsk og bandarísk flugfélög hafa varað við því að afleiðing kyrrsetningar Boeing 737 max flugvéla verði sú að samanlagður hagnaður félaganna verði hundruð milljónum dala lægri en gert hafði verið ráð fyrir. Því má búast við að Boeing muni sitja uppi með ansi háar skaðabótakröfur frá flugfélögunum. FT greinir frá.

Búist er við því að sótt verði hart að flugvélaframleiðandanum af hluthöfum á ársfundi félagsins sem fer fram í dag. Kallað hefur verið eftir því að hrisst verði upp í stjórninni og að Lawrence Kellner, stjórnarformaður, víki úr sæti sínu fyrir að hafa látið öryggisgalla 737 Max flugvélanna framhjá sér fara.

Nær ómögulegt er að reikna út hve háar bótakröfurnar sem Boeing muni standa frammi fyrir verða að sögn sérfræðinga og annarra aðila í fluggeiranum. Það sé vegna þess að ekki liggur enn fyrir hvenær kyrrsetningu vélanna verður aflétt.

Allar 737 Max flugvélar Boeing hafa verið kyrrsettar á heimsvísu frá 13. mars og mun kyrrsetningunni ekki vera aflétt fyrr en Boeing lagar galla í kerfi flugvélanna, sem taldir eru hafa átt sök á tveimur mannskæðum flugslysum á síðastliðnum sex mánuðum.   

Stikkorð: Boeing flug 737 Max