Ólöf Nordal, þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, mun áfram gefa kost á sér sem formaður Sjálfstæðiflokksins en landsfundur flokksins fer fram næstu helgi.

Þetta staðfesti Ólöf á facebook síðu sinni fyrir stundu. Þar skrifar Ólöf: „Er að undirbúa landsfund. Ég mun áfram gefa kost á mér sem varaformaður flokksins. Framundan er mikið og skemmtilegt starf. Við þurfum að taka saman höndum, skerpa á hugmyndafræðinni og lyfta sjálfstæðisstefnunni hátt á loft!“

Ólöf var kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins sumarið 2010, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafði þá nýlega sagt af sér varaformennsku eftir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis kom út sama vor.

Sem fyrr segir fer landsfundur Sjálfstæðisflokksins fram næstu helgi. Ólöf er sú eina sem lýst hefur yfir framboði til varaformennsku í flokknum.

Hins vegar hafa tveir einstaklingar lýst yfir framboði til formennsku í flokknum, þau Bjarni Benediktsson, núverandi formaður, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrv. borgarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Hanna Birna hefur komið mun betur út í skoðanakönnunum undanfarnar vikur og í könnum sem unnin var fyrir Viðskiptablaðsins í október naut Hanna Birna trausts um 80% aðspurðra á meðan Bjarni naut trausts um 20% þátttakenda í könnuninni. Þegar eingöngu var horft til þeirra sem þegar styðja Sjálfstæðisflokksins voru hlutföllin um 70-30, Hönnu Birnu í vil. Hins vegar hefur það aðeins einu sinni gerst áður að formaður Sjálfstæðisflokksins sé felldur á landsfundi, þ.e. árið 1991 þegar Davíð Oddsson sigraði þáverandi formann, Þorstein Pálsson. Það er því óhætt að segja að það stefni í áhugaverðan landsfund.