Stjórnendur Vodafone veltu því mikið fyrir sér hvort að Kauphöllin hér á landi væri rétti staðurinn fyrir fyrirtækið þegar hugað var að því hvort rétt væri að skrá ekki stærra fyrirtækin en þetta á markað.

Þetta sagði Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone, á fundi Viðskiptaráðs, Deloitte og Kauphallarinnar um virkan verðbréfamarkað sem nú stendur yfir í Turninum í Kópavogi. Sem kunnugt er á sér núna stað undirbúningsferli að skráningu Vodafone í Kauphöllina.

Ómar sagði þó að reynslan hefði sýnt að það væri ekki stærðin sem skiptir máli heldur gæði þess fyrirtækis sem um ræðir. Ársvelta Vodafone er um 13 milljarðar króna. Á fundinum lýsti Ómar því ferli sem átt hefur sér stað frá því að lokaákvörðun var tekin í júlí sl. Hann sagði ferlið spennandi, starfsmenn væri spenntir fyrir skráningu og sló á létta strengi þegar hann sagði að fyrirtækið væri nú á fermingaraldri (Vodafone á Íslandi verður fjórtán ára á árinu).

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, er fundarstjóri á fundinum og sat beint fyrir framan ræðupúltið. Ómar sagði nokkrum sinnum í erindi sínu að hann þyrfti að tala varlega því lög Kauphallarinnar, t.d. um innherjaviðskipti, væru þegar tekin gildi.

Hann sagði að ferlið hafa verið gefandi fyrir stjórnendur, það hafi verið mikilvægt að skoða grunnstoðir fyrirtækisins, skoða rekstur þess upp á nýtt og fara í gegnum verkferla í því undirbúningsferli sem átt hefur sér stað.

Í lok erindis síns sagðist Ómar ekki geta upplýst hvenær félagið yrði skráð á markað, en sagði fundargestum að gera ráð fyrir rauðum jólum.