KB banki kemur inn á danska markaðinn með aðra afstöðu til áhættu en tíðkast meðal danskra banka, segir í frétt á vefsíðu danska blaðsins Berlinske Tidende í gær. Þar segir að KB banki sé tilbúinn til þess að taka áhættu með viðskiptavininum. "Á meðan danskir bankar gerast aðeins nauðbeygðir meðeigendur í atvinnurekstri hefur KB banki allt aðra afstöðu og lítur beinlínis á það sem skyldu bankans að taka áhættu með viðskiptavinunum" segir blaðið en áhugi Dananna á KB banka er vakinn vegna nýlegra kaupa hins íslenska banka á FIH bankanum þar í landi.

Bent er á það að Jyske Bank hafi í áravís reynt að losna út úr rekstri Magasin, þar sem bankinn vilji ekki vera meðeigandi, en KB banki eigi aftur á móti veigamikinn hlut í tískufyrirtækjunum Karen Millen og Oassis. "Við tökum áhættu með viðskiptavininum," er haft eftir Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni KB banka. Fram kemur að hann er ekki hrifinn af því háttalagi fjárfestingabankanna að veita dýra ráðgjöf en þora svo ekki að taka áhættu með viðskiptavininum í framhaldi þeirrar ráðgjafar.

Sá tími er liðinn, segir Sigurður, er forráðamenn fyrirtækis höfðu samband við "penan" fjárfestingabanka sem mætti til leiks með prúðan endurskoðanda og ekki síður prúðan lögfræðing sem buðust til að veita ráðgjöf gegn háu gjaldi. Í dag teljum við nauðsynlegt að taka áhættu með viðskiptavininum, segir hann.

Á vef Berlinske segir að danskir bankar hafi undanfarin ár takmarkað mjög áhættu sína í lánveitingum og því tapað tiltölulega litlu fé. Á móti komi að atvinnulífið hafi kvartað undan litlum vilja bankanna til að létta undir því með lánveitingum.