Opin Kerfi Group hf. mun leita samkomulags við handhafa skuldabréfa félagsins um frestun afborgana og vaxtagreiðslna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu en Opin Kerfi Group hf. er útgefandi skuldabréfa með heitið OPKF 01 1, sem eru á gjalddaga þann 20.apríl 2009 n.k.

Fram kemur í tilkynningunni að stjórn félagsins hefur að undanförnu unnið að endurskipulagningu á fjárhag félagsins. Ákveðið hefur verið að hefja viðræður við lánadrottna félagsins, þ.m.t eigendur ofangreindra skuldabréfa, um uppgjör á kröfum á hendur félaginu. Stefnt er að því að niðurstaða verði ljós á næstu vikum.

Þá sendi Kauphöllin frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að skuldabréf útgefið af Opin Kerfi Group hefur verið fært á Athugunarlista vegna óvissu um fjárhagslega stöðu útgefanda.