Norræni fjárfestingarbankinn og Landsbankinn hafa hleypt af stokkunum nýjum 30 milljóna evra lánaramma til fimm ára fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og umhverfistengd verkefni á Íslandi.

Um er að ræða fyrsta lán Norræna fjárfestingarbankans til íslensks banka síðan ríkisstjórnin byrjaði að aflétta gjaldeyrishöftunum sem sett voru á banka í kjölfar efnahagskreppunnar árið 2008.

Lánveitingar úr lánarammanum verða ákveðnar á grundvelli þess hve vel þær samræmast því markmiði Norræna fjárfestingarbankans að stuðla að aukinni samkeppnishæfni aðildarríkja bankans. Lánþegar munu koma úr ýmsum atvinnugreinum, þar á meðal sjávarútvegi, landbúnaði og upplýsingatækni.

Henrik Normann, forstjóri Norræna fjárfestingarbankans, telur að afnám gjaldeyrishafta muni ýta undir efnahagslegan bata á Íslandi.

"Að mati Norræna fjárfestingarbankans er ramminn mikilvægur liður í því að stuðla að fjárfestingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi. Við teljum að afnám gjaldeyrishafta muni ýta frekar undir efnahagslegan bata á Íslandi.

Við álítum að í stjórn efnahagsmála í landinu hafi verið stigin nauðsynleg skref til að tryggja að bankakerfið standist álagið þegar höftunum verður aflétt."

Bankastjóri Landsbankans, Steinþór Pálsson, telur undirritunina ánægjulegan áfanga, og að aukinn áhugi erlendra fjárfesta sé mikilvægur þáttur fyrir íslenskt efnahagslíf.

"Undirritunin í dag markar ánægjulegan áfanga í uppbyggingu trausts á erlendum fjármálamörkuðum. Lánskjörin í samningnum við NIB eru bankanum hagfelld og styðja við markmið bankans um að lækka fjármögnunarkostnað og auka fjölbreytni lánveitenda í erlendri mynt.

Aukinn áhugi erlendra fjárfesta og aðgangur að erlendu lánsfé á hagstæðum kjörum eru mjög mikilvægur þáttur fyrir íslenskt efnahagslíf."