Í morgun opnaði nýr markaðsvefur um sjávarútveg, sax.is og er að sögn aðstandenda nýjung í sjávarútvegsmálum á Íslandi.

Það er fyrirtækið Vefmiðlun ehf. sem þróaði og starfrækir vefinn sem mikil vöntun var á að sögn Friðbjörns Orra Ketilssonar framkvæmdastjóra félagsins.

„Sjávarútvegurinn er sterkasti atvinnuvegur landsins og hefur mikla þörf fyrir skýrar og greinagóðar upplýsingar, segir Friðbjörn Orri í samtali við Viðskiptablaðið.

„Við höfum mikla reynslu í slíkum verkefnum og settum því allt í gang þegar aðilar innan greinarinnar leituðu til okkar. Það var mikil vöntun á svona vef og erum við stoltir af okkar nýjustu afurð.“

Friðbjörn Orri segir vefinn umfangsmikinn og sérhæfðan í framsetningu á markaðsgögnum í sjávarútvegi.

Hann segir að á vefnum sé að finna lifandi fréttastraum, upplýsingar af fiskimörkuðum, yfirlit yfir útgerðir, skip og hafnir ásamt nákvæmum tölum um kvótaeign, leiguverð og veiðistöðu.

Aðspurður um hvort ekki sé erfitt að ráðast í þróunarvinnu og nýjungar á þeim tímum sem nú standa yfir í þjóðfélaginu segir Friðbjörn Orri:

„Tími þróunar og nýjunga er einmitt í erfiðu árferði. Mestu skiptir þó að það sé gert í takt við raunverulega eftirspurn, líkt og í tilviki Sax.“

Vefslóðin að vefnum er www.sax.is .