Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur samið við hollenska bankann ING um áhættuvarnir vegna gengis og vaxta. Áhættuvarnirnar draga úr áhrifum álverðs og gengis á lausafjárþörf félagsins, að því er segir í tilkynningu frá OR.

Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður OR, segir í samtali við Viðskiptablaðið að verið sé að takmarka áhættu sem kostur er. Vissulega felist í því kostnaður eins og við hverja aðra tryggingu. Stærðin sé þó þekkt og viðráðanleg. Haraldur Flosi segir samninginn fela í sér traustsyfirlýsingu enda leggur bankinn talsvert undir með slíkum samningi. Bankinn hefur skoðað reksturinn um nokkurt skeið.

Auk þess að tilkynnt er um samninginn við ING upplýsir Orkuveitan nú um áhættustefnu fyrir rekstur og sérstaka endurskoðunarnefnd. Áhættustefna hefur ekki áður verið til fyrir rekstur félagsins en stjórnin stendur sameiginlega að tillögunum. „Það má segja að með áhættustefnunni og skipan endurskoðunarnefndar sé sleginn nýr taktur í stjórnháttum fyrirtækisins. Æskilegt er að næst verði endurskoðaðar starfsreglur stjórnar og stefnumótun félagsins. Undanfarin ár hafa litast af bráðaverkefnum en nú er reynt að innleiða varanlegar breytingar á stjórnháttum. Ég held að til framtíðar litið sé þetta eitt af jákvæðu skrefunum til þess að tryggja stöðugleika,“ segir Haraldur Flosi.

Að sögn Haraldar er áhættustefnan í raun eftirlitstæki. Með henni er starfseminni sett ákveðin viðmið, og mótstykkið við hana sé eftirlit. Þannig veiti stefnan bæði yfirsýn og aðhald. Í tilkynningu frá OR segir að „[m]eginmarkmið stjórnar með áhættustefnunni er að tryggja að OR geti sinnt grunnhlutverki sínu og rækt skyldur sínar með sem minnstri röskun sökum óhagstæðrar þróunar þátta sem falla utan kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Sérstök áhættunefnd hefur starfað innan OR en fær nú stefnuna í hendurnar til að vinna eftir. Í henni sitja lykilstarfsmenn auk þess sem utanaðkomandi sérfræðingar eru fengnir að borðinu.