Við höfum sett umtalsverða orku í menntun þjóðarinnar og á óvissutímum sem þessum þurfum við að nýta þessa menntun sem best  - finna leiðir til að skapa úr henni verðmæti og velsæld fyrir fólkið í landinu.

Við þurfum að nýta alla okkar krafta til að komast yfir áfallið, halda áfram og hefja uppbygginguna strax.

Þetta sagði Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA), í erindi sem hann flutti á 50 ára afmælisráðstefnu BHM sem fór nýverið fram. Erindið er birt í heild sinni á vef SA.

Á vef SA kemur fram að Þór kom víða við en hann ræddi meðal annars um hugarfar þjóðarinnar og þá tilhneigingu sem hefur grafið um sig að efast um ungt fólk með hugmyndir. Það sé alvarlegasta ógnunin við framtíð Íslands ef hugarfarið breytist til hins verra.

„Alvarlegasta ógnunin við framtíð Íslands er ekki skuldsetning heldur að hugarfarið breytist til hins verra. Við fáum hert og heiftúðugt hugarfar þar sem kallað er eftir nýju Íslandi, Íslandi þar sem vantrú ríkir á öllu sem viðkemur einkaframtaki og gróða og þar sem þeir sem græða verði útnefndir gróðahyggjumenn og þeir sem tapa eru útnefndir aukvisar,“ sagði Þór.

Sjá erindið í heild sinni (pdf skjal)