Það er mikilvægt að fólk fái eins raunsanna mynd af ástandi efnahags- og ríkisfjármála og frekast er kostur. Frá upphafi kreppunnar hefur borið á stórum yfirlýsingum um hörmulegt ástand þjóðarbúsins sem skapað hefur ótta og dregið kjark úr fólki.

Skemmst er að minnast yfirlýsinga strax í kjölfar bankahrunsins um að hér yrði  matar- og olíuskortur.

Þetta kemur fram í grein Þórs Sigfússonar, formanns Samtaka atvinnulífsins sem birt er á vef samtakanna í dag undir fyrirsögninni; Hvernig tölum við efnahagslífið niður?

Þór rifjar upp í grein sinni að nokkrir hagfræðingar hafi spáð því fyrir áramót að 40 þúsund manns yrðu atvinnulausir í mars 2009, aðrir spáð hér þriggja og jafnvel fjögurra stafa óðaverðbólgu, sumir haft á orði að fasteignaverð myndi hrynja um 75% á fjórum mánuðum eftir hrunið og birtar hafi verið  skýringarmyndir þar sem sagt var að ríkissjóður skuldaði vel á þriðja þúsund milljarða króna eða sem nemur 10 milljónum á hvert mannsbarn.

„Reynum að vanda okkur í yfirlýsingum,“ segir Þór í grein sinni.

„Vandræðin eru alveg næg þó svo við séum ekki að ýkja umfang þeirra.“

Þá minnir Þór á að þegar hafi komið fram að nettó ríkisskuldir eru áætlaðar um 5-600 milljarðar í árslok 2009 eða 33-40% af áætlaðri landsframleiðslu ársins, en slíkt hlutfall sé alls ekki fjarri því sem þekkist í mörgum samkeppnislöndum okkar. Nú líti allt út fyrir að óðaverðbólgan sem margir spáðu árið 2009 verði nokkuð undir 10%.

Þá segir Þór að þeir sem eru á atvinnuleysisskrá séu 16 þúsund en ekki 40 þúsund og að á Íslandi sé minna atvinnuleysi en í mörgum Evrópulöndum og Bandaríkjunum. Þór bætir því við að fasteignaverð hafi lækkað en því fari fjarri að það hafi lækkað um 75%.

„Það er mikilvægt að vera raunsær á tímum sem þessum og segja fólki satt og rétt frá,“ segir Þór í grein sinni.

„Þeir fáu sem höfðu hæst um viðkvæmt eða hættulegt ástand fjármálakerfisins nutu lítillar hylli og athygli fyrir hrun þrátt fyrir að hafa rétt fyrir sér. Nú vilja hins vegar allir tala eins og þeir. Það er bara of seint! Skaðinn er skeður, hreinsunarstörfin standa yfir og raunsætt mat skiptir meiru en svartnættisspár.“

Sjá grein Þórs í heild sinni.