Við bíðum eftir trúverðugri stefnu sem kemur okkur út úr vandanum. Við höfum margoft heyrt að stjórnvöld styðji við atvinnulífið – vinni með okkur - en því miður hafa veigamestu aðgerðirnar unnið gegn atvinnulífinu en ekki með því.

Þetta sagði Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) í ræðu sinni á aðalfundi SA sem nú stendur yfir.

Þór sagði efnahagsskellinn s.l. hafa verið sá mesti í nútímasögunni, bankakerfið hafa hrunið á einni viku og gengi íslensku krónunnar lækkað meira en nokkurn gat órað fyrir.

„Afleiðingarnar eru rekstrarerfiðleikar fyrirtækja og atvinnuleysi. Þetta viðfangsefnið á næstunni fyrir atvinnulífið, stjórnvöld og fólkið í landinu.,“ sagði Þór.

„Við sem hér erum inni höfum staðið í baráttu við að bjarga fyrirtækjunum, bjarga störfum og halda starfsemi gangandi í nánu samstarfi við starfsfólk okkar. Þetta eru erfiðustu rekstrarskilyrði sem flest okkar hafa upplifað á ævinni. Óvissan hefur verið nagandi og ekki síst hefur það tekið á að sjá starfsmenn okkar í óvissu; um starfið, launin, heimilið, fjárhaginn.“

Koma þarf bönkunum af stað á ný, lækka vexti og afnema gjaldeyrishöft

Þór sagði að SA hefðu ítrekað hvar hver brýnustu hagsmunamál atvinnulífsins eru, hvernig eigi að koma atvinnulífinu af stað og gera okkur kleift að skapa störf.

„Við þurfum að lækka vexti hratt,“ sagði Þór.

„Það sér hver heilvita maður sem lítur aftur síðustu ár að vaxtastefnan hérlendis hefur verið sem snara um háls atvinnulífsins. Háir vextir hérlendis lama hundruð fyrirtækja í hverjum mánuði og koma þeim úr umferð. Munum að hávaxtastefnan er heimatilbúin og ein stærsta einstaka ástæðan fyrir því hversu illa er komið fyrir landinu okkar.“

Þá sagði Þór að koma þyrfti bönkunum af stað á ný og varaði við því að ríkisrekstur bankakerfisins yrði festur í sessi.

„Slíkir bankar munu ekki með góðu móti geta þjónað viðskiptavinum sínum og án aðkomu erlendra aðila mun aðgangur Íslands að erlendum fjármagnsmörkuðum verða takmarkaður,“ sagði Þór.

„Þrátt fyrir að margir hafi á orði að bankarnir hafi þjáðst af ákvörðunarfælni og í tísku sé að tala niður til bankastarfsmanna tel ég að mörgu leyti að starfsfólk bankanna hafi gert vel í mjög þröngri og erfiðri stöðu. Við þurfum að hvetja þetta fólk til dáða en um leið að leggja allt kapp á að bankarnir fari sem fyrst úr ríkiseigu.“

Þór sagði einnig að afnema þyrfti gjaldeyrishöftin fljótt og setning laga um gjaldeyrishöft þann 29. nóvember 2008 hafi verið mikil mistök og allt of viðamikil aðferð.

„Með höftunum var sköpuð meiri vantrú en ella á að gengi krónunnar gæti styrkst,“ sagði Þór.

„SA vöruðu við því að gjaldeyrishöftin myndu kalla á enn meiri höft sem hefur komið á daginn. Útilokað er að íslensk fjármálafyrirtæki og atvinnulífið almennt fái eðlilega lánafyrirgreiðslu hjá erlendum bönkum á meðan gjaldeyrishöft eru við lýði. Sú staðreynd felur einfaldlega í sér meiri kröfur á niðurgreiðslu skulda og viðskiptaafgang en efnahagslífið og þjóðarbúið rís undir. Langvarandi gjaldeyrishöft fela því í sér að yfirvofandi hættu á nýrri fjármálakreppu.“