Þá fjárhagserfiðleika sem Orkuveita Reykjavíkur hefur þurft að glíma við á síðastliðnum árum má að miklu leyti rekja til mikilla fjárfestinga og fjárfrekra framkvæmda á skömmum tíma, hárra arðgreiðslna og tregðu eigenda að hækka gjaldskrár í samræmi við verðlagsþróun, auk gríðarlegs gengistaps.

Þannig eru upphafsorðin í ítarlegu skýrslu úttektarnefndar um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur. Í júní 2011 skipaði núverandi meirihluti borgarráðs úttektarnefnd en henni var ætlað að gera úttekt á þeim þáttum sem leiddu til núverandi fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Nefndina skipa þau Margrét Pétursdóttir, endurskoðandi, Ása Ólafsdóttir og Ómar Hlynur Kristmundsson, prófessor í opinberri stjórnsýslu við HÍ.

Í skýrslunni, sem er tæpar 580 blaðsíður, er farið ítarlega yfir rekstur Orkuveitunnar frá því að hún var stofnuð árið 2001 (með lögum frá árinu 2001). Dregin eru upp helstu álitamál sem snúa að rekstri og stjórnun fyrirtækisins og aðdragandinn að stöðu fyrirtækisins til ársloka 2010 rakinn.

Til að draga saman helstu niðurstöður má í stuttu máli segja að inngangsorðin skýri stöðu Orkuveitunnar í lok árs 2010. Það væri þó mikil einföldun að segja það einu ástæðurnar.

Óskýr lög um starfsemi

Það sem meðal annars er gagnrýnt í skýrslunni er opið tilgangsákvæði í lögum, reglugerð og sameignarsamningi Orkuveitunnar hafi skapað fyrirtækinu það svigrúm sem fyrirtækið þurfti til að fjárfesta í margvíslegri starfsemi hérlendis og erlendis

Í stuttu máli má segja að lögin um fyrirtækið, og þá sérstaklega sá hluti sem snýr að heimildum stjórnenda til að skuldbinda fyrirtækið án samþykkis eigenda, þyki of óskýr. Það hafi leitt til þess að dregið hafi úr eftirliti eigenda og jafnframt skapað rými fyrir stjórn fyrirtækisins til þess að skuldbinda það, m.a. með kaupum á jaðarveitum og hlut forkaupsréttarhafa í Hitaveitu Suðurnesja.

„Í ljósi skorts á skýrri eigendastefnu og deilna um hana, telur úttektarnefndin að forstjóri hafi haft mikið ráðrúm til að móta og ákveða, hvernig fyrirtækið ætti að þróast og hvernig ætti að stýra fjárfestingum þess,“ segir í skýrslunni.

„Í viðtölum úttektarnefndarinnar hefur komið í ljós að stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur hafi frá stofnun þess litið á fyrirtækið sem sjálfstætt félag og ekki talið sig þurfa að leita til eigenda nema í tilviki 5% ábyrgðarreglunnar. Þetta viðhorf gengur þvert gegn þeirri staðreynd að fyrirtækið var rekið með bakábyrgð eigenda sem reynt hefur á í starfsemi fyrirtækisins. Stjórnendur þess hafa rekið fyrirtækið sem einkaréttarlegt fyrirtæki í umfangsmikilli samkeppni bæði á fjarskiptamarkaði á raforkumarkaði, á meðan eigendur líta á það sem fyrirtæki í almannaþjónustu sem t.d. feli í sér skyldur að reka mannvirkið Perluna og samhliða áskilja sér rétt til umtalsverðra arðgreiðslna úr fyrirtækinu.“

Þó er vikið að því í skýrslunni að í kjölfar REI-málsins svokallaða og efnahagshrunsins á Íslandi hafi orðið breyting á viðhorfi til tilgangs Orkuveitu Reykjavíkur og tæki voru virkjuð til að bæta stjórnarhætti.

Þá kemur fram að í viðtölum úttektarnefndarinnar hafi komið fram afar ólík sjónarmið um hvort fyrirtækið starfi eingöngu á einkaréttarlegum grunni, eða hvort og þá að hvaða marki líta eigi til annarra hagsmuna, svo sem samfélagslegra, við rekstur þess.

„Brýnt er því að tekið sé af skarið um hvort reka eigi Orkuveitu Reykjavíkur sem opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar á einkaréttarlegum grunni sem lúti þeim reglum sem gilda um stjórn og rekstrarfyrirkomulag þeirra,“ segir í niðurstöðu úttektarnefndarinnar.

„Þá má velta því upp hvort rétt sé að orkufyrirtæki í almannaeigu kaupi jarðveitur og í sumum tilvikum niðurgreiði þjónustu til notenda á öðrum veitusvæðum, án þess að um það hafi verið efnislega fjallað af stjórn fyrirtækisins. Heildarstefnu um þetta skortir að áliti úttektarnefndarinnar. Félagsform fyrirtækisins hefur staðið því fyrir þrifum vegna óskýrra reglna um vald og ábyrgð.“