Styrkjum að upphæð 99 milljóna króna hefur verið veitt úr Umhverfis- og orkurannsóknarsjóði Orkuveitu Reykjavíkur og renna þeir til 39 verkefna.

Meðal annars eru styrktar rannsóknir á sundmenningu og hreinsivirkni settjarna, en einnig upphitun náttúrulegra grasvalla, svo eitthvað sé nefnt.

Háskólarnir sjö á veitusvæði OR eiga auk fyrirtækisins aðild að sjóðnum og sitja rektorar þeirra í vísindaráði hans.

Höfum einhverju að miðla

Þegar styrkveitingarnar voru tilkynntar kvaðst Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri OR, vona að þær auðvelduðu vísindamönnunum að sinna hugðarefnum sínum og ekki síst grunnrannsóknum, því að með þeim væri kleift að halda forystu Íslendinga í sjálfbærri nýtingu auðlinda.

„Við þekkjum þær betur en aðrir og höfum einhverju að miðla til umheimsins,“ sagði Hjörleifur.

Við athöfnina voru kynnt tvö verkefni styrkt af sjóðnum. Annars lýtur að bindingu koltvísýrings sem silfurbergs í basalthraunum Hellisheiðar, hitt er rannsókn Landbúnaðarháskólans á endurheimt staðargróðurs á röskuðum hálendissvæðum.