*

mánudagur, 17. júní 2019
Innlent 16. mars 2019 13:09

Óraði ekki fyrir uppgangi Friðheima

180 þúsund manns heimsóttu Friðheima í fyrra sem er tvöhundruðfalt fleiri en gestirnir voru árið 2008.

Ingvar Haraldsson
Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir eigendur Friðheima.
Haraldur Guðjónsson

Það hefur komið okkur á skemmtilega á óvart hvaða stefnu þetta ferðaþjónustuævintýri okkar hefur tekið,” segir Knútur Rafn Ármann, garðyrkju- og ferðaþjónustubóndi í Friðheimum í Reykholti í Biskupstungum. Knútur og eiginkona hans, Helena Hermundardóttir, keyptu Friðheima árið 1995, þegar þau voru 25 ára gömul. Þau eru bæði uppalin í Reykjavík, og höfðu takmarkaða reynslu af búskap auk þess að gróðurhúsin höfðu ekki verið í ræktun um nokkurra ára skeið. „Við vorum bæði nýskriðin úr skóla. Ég frá Bændaskólanum á Hólum og Helena frá Garðyrkjuskólanum. Ég veit ekki alveg hvernig foreldrum okkar leið þegar við tókum þessa áhættu. Enda voru fyrstu árin svolítið basl, þegar við vorum að koma okkur upp lágmarksþekkingu og lágmarksbúnaði,“ segir Knútur.

Síðan þá hafa þau byggt upp staðinn og reka í dag fimm þúsund fermetra garðyrkjustöð, þar sem áherslan er fyrst og fremst á tómatarækt og einn vinsælasta viðkomustað ferðamanna á gullna hringnum. Starfsmennirnir eru 47 í vetur og verða hátt í 60 í sumar. „Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að maður ætti eftir að reka hádegisverðarstað 100 kílómetra frá Reykjavík og vera uppbókaður stóran hluta af árinu með sæti fyrir 140 manns,“ segir Knútur.

„Eftir bankahrunið árið 2008 ákváðum við hjónin að stíga frekar inn í ferðaþjónustuna. Við stækkuðum garðyrkjustöðina um 60% og jukum framleiðsluna og opnuðum gestastofu og veitingastað inni í miðju gróðurhúsi. Fyrsta árið, 2008, tókum við á móti 900 gestum í ferðaþjónustunni og í fyrra tókum við á móti tæplega 180 þúsund gestum.“ Biðlisti er eftir borði á veitingastað Friðheima flesta daga frá mars og út október. Þar gæða gestir sér á tómatsúpu og öðrum veitingum ásamt því að geta kynnt sér íslenska hestinn, en einnig er staðið að sýningum á íslenska hestinum á Friðheimum.

„Ég gerði fimm ára rekstraráætlun fyrir bankann árið 2011 þar sem við þurftum að sýna fram á að verkefnið væri arðbært. Við vorum að ræða þá að eftir fimm ár, árið 2016, myndum við vera komin í 25 þúsund gesti á ári en þegar við settumst niður 2016 og skoðuðum stöðuna vorum við komin í 135 þúsund gesti það árið. Þannig að við sáum þetta ekki fyrir,“ segir Knútur.

Nánar er rætt við Knút í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Friðheimar
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is