Bandaríski prófessorinn Hélène Landemore hefur tekið saman fimm atriði sem fóru úrskeiðis við breytingu á íslensku stjórnarskránni. Þetta gerir Landemore í vísindatímaritinu Journal of Political Philosophy. Landemore skrifar um niðurstöður sínar í vefmiðilinn Slate.

Í fyrsta lagi hafi ferlið allt verið óundirbúið og of margir óvissuþættir hafi verið um hvernig ætti að bregðast við. Sem dæmi nefnir Landemore að ekki hafi legið fyrir í upphafi hvort niðurstöður stjórnlagaráðs hafi bara verið eiginlegar tillögur eða hvort þær hafi átt að vera bindandi. Þannig var óvíst hvort það var á valdi þingmanna að breyta þeim eftir á, eða hvort þeim hafi borið að fara ítarlega eftir þeim. Skipulagsleysið hafi þannig dregið úr trúverðugleika stjórnlagaráðs. Þá hafi verið ógagnsætt með hvaða hætti stjórnlagaráð fór með tillögur almennings og með hvaða hætti það tók tillit til þeirra.

Í öðru lagi hafi ýmsir þætti ferlisins virst órökstuddir. Þannig hafi ekki verið útskýrt nægilega vel hvers vegna 25 manns sætu í stjórnlagaráði, en ekki einfaldlega 100 manns sem voru valdir af handahófi. Betra skipulag og rökstuðningur hefðu komið í veg fyrir ágreining í kringum ferlið og ljáð því aukinn trúverðugleika, sem hafi skort.

Í þriðja lagi hafi ferlið í heild sinni verið óraunhæft, enda gerði núverandi stjórnarskrá fyrir því að erfitt væri að kollvarpa henni. Til að mynda þyrfti tvö þing til að samþykkja nýja stjórnarskrá. Því hefði verið raunhæfara og skynsamlegra að breyta því sem hefði þurft að breyta í stað þess að henda stjórnarskránni í heild sinni út um gluggann af óskilgreindum ástæðum.

Í fjórða lagi virtist sem ferlið í heild sinni hafi mætt of mikilli andstöðu úr samfélaginu og frá öðrum stofnunum ríkisins. Vegna þess að markmiðið hafi verið að kollvarpa stjórnarskránni og synda gegn straumnum hafi það til lengri tíma dregið úr trúverðugleika stjórnlagaráðs. Til að mynda hafi það verið þungt högg þegar Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að kosningar til stjórnlagaþings hafi verið ólögmætar.

Þá naut ferlið lítils fylgis meðal fræðimanna sem vildu flestir mun varfærnari breytingar en voru lagðar til í nýrri stjórnarskrá og gagnrýndu ferlið almennt. Þá virðist sem almenningur og fjölmiðlar hafi haft lítinn áhuga á breytingunum.

Í fimmta lagi segir Landemore að aðkoma lögfræðinga og annara að ferlinu hafi útþynnt eða breytt tillögum stjórnlagaráðs. Þó að mikilvægt sé að notast við ráðgjöf sérfræðinga megi aðkoma þeirra ekki skemma niðurstöðurnar.