*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 20. október 2014 16:51

Orðin fáviti og daufblindur tekin úr lögum

Breyta á ýmsum lögum samkvæmt nýju frumvarpi, sem fjallar um breytta hugtakanotkun og er hluti af fullgildingu sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Ritstjórn
Innanríkisráðuneytið hefur birt frumvarpsdrög um breytta hugtakanotkun.
Haraldur Guðjónsson

Orðin fáviti og daufblindur verða tekin út úr íslenskum lögum samkvæmt frumvarpi sem innanríkisráðherra hyggst leggja fram á Alþingi. Frumvarpið fjallar um breytta hugtakanotkun í íslenskri löggjöf og er hluti af undirbúningi á fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi. Innanríkisráðuneytið hefur birt drögin á heimasíðu sinni

Orðið fáviti kemur fyrir í almennum hegningalögum frá árinu 1940. Orðinu verður skipt út og í stað þess mun standa einstaklingur með þroskahömlun. Í lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga er talað um daufblinda, en í staðinn verður nú talað um einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. 

Þá verður hætt að nota orðið fatlaðir og í staðinn talað um fatlað fólk í ýmsum lögum.