Samningar hafa náðst við þýska forlagið S. Fischer Verlag og danska risann Gyldendal um útgáfu á nýrri skáldsögu Kristínar Maríu Baldursdóttur, Óreiðu á striga, strax á næsta ári.  Höfðu bæði forlögin beðið útgáfu bókarinnar á Íslandi með eftirvæntingu, þar sem fyrri bók Kristínar Marju, Karitas á titils, hafði náð einstaklega góðum árangri í báðum löndunum. Eftir lestur bókarinnar eru báðir útgefendur þess fullvissir að móttökur Óreiðu á striga verði ekki síðri.

Í tilkynningu vegna samninganna segir að Karitas á titils hafi hlotið afar jákvæðar umsagnir gagnrýnenda í Þýskalandi og Danmörku. Nýverið var bókin valin af Kristeligt Dagblad sem ein af tíu bestu bókum ársins 2007, en við það tækifæri sagði Vibeke Blaksteen bókina ,,Óviðjafnanlega skáldsögu um baráttu konu fyrir bæði ást og list í örvandi blöndu raunsæis og íslenskra töfra.”  „Dásamleg saga, sem heldur manni föngnum á meðan hún varir og fylgir lesandanum löngu eftir að lestri lýkur, eins og allar stórbrotnar frásagnir,“ skrifaði Kathrine Lilleør í Berlinske Tidende og gaf bókinni sex stjörnur. Og þýska tímaritið Buecher-magazin taldi Karitas „Tilfinningaþrungið og nánast angurvært verk um ástina og þær byrðar sem hún getur lagt á þá sem elska.“

Allmargir erlendir útgefendur sýndu Óreiðu á striga áhuga á bókasýningunni í Frankfurt í haust og eru samningaviðræður um útgáfuréttinn meðal annars langt komnar við aðila í Hollandi, Frakklandi og Noregi.