Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hún hafi ekki tekið þátt í neinum ákvörðunum á ríkisstjórnarfundum er vörðuðu einstaka banka í kringum bankahrunið.

þetta kom fram í ræðu sem hún er nú að flytja á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði að ákvarðanir annarra ráðherra, svo sem viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra, hefðu stundum verið kynntar á ríkisstjórnarfundum „en þar við sat," sagði hún.

Þorgerður Katrín sagði að dylgjað hefði verið um sig og eiginmann sinn og jafnvel hjónaband þeirra sem væri svo ósmekklegt og rangt að hún gæti ekki haft það eftir.

Með félag Kristjáns verði að sjálfsögðu farið að lögum

Hún sagðist telja að á árinu 2009 yrði hún dæmd út frá verkum sínum, sem varaformaður og menntamálaráðherra. Hún hefði líka talið að hún þyrfti ekki að svara fyrir störf eða laun eiginmanns síns, Kristjáns Arasonar. Hún hefði að sama skapi talið að makar og börn stjórnmálamanna ættu að fá að lifa óáreitt vegna starfa þeirra.

„Þegar maður stendur frammi fyrir slíkum árásum getur maður gert tvennt hundsað þær eða rætt málin," sagði hún  „Með þessum sögum er reynt að grafa undan heilindum mínum og trúverðugleika svo ég tali nú ekki um manninn minn og mér finnst að þið eigið rétt á því að ég segi ykkur mína hlið," sagði hún og gerði því næst grein fyrir störfum eiginmanns síns hjá Kaupþingi.

„Eiginmaður minn hefur verið starfsmaður hjá fjármálafyritækjum í um 15 ár eftir að hann lauk atvinnumennsku í handbolta. Hann fjárfesti í hlutabréfum Kaupþings og tók síðar lán til þess líkt og margir starfsmenn bankans.

Eftir á að hyggja má gagnrýna það óhikað að starfsmenn fjárfestu í svo miklum mæli í banka en það var þó gert með jákvæða sýn á framtíð bankans."

Hún sagði að í byrjun árs 2008 hefði hann ákveðið að setja hlutabréfaeignina og skuldir í eignarhaldsfélag "en markmiðið var að eiga hlutabréfin til lengri tíma. Eignir félagsins voru ávallt umfram skuldir fram að aðdraganda hrunsins en það lenti eins og mörg önnur svipuð félög í miklum vandræðum þegar kreppan skall í október. Með það félag verður að sjálfsögðu farið að lögum eins og öll önnur félög í sambærilegri stöðu."

Og áfram sagði Þorgerður Katrín:  „Sagt er að Kristján, sem einn af framkvæmdastjórum Kaupþings hafi vitað allt um ákvarðanir sem teknar hafi verið. Þetta er rangt. Hið rétta er að Kristján var ekki einu sinni skráður sem innherji í bankanum síðsutu ár og það segir allt um aðkomu hans að lykilákvörðunum í bankanum."

Ber virðingu fyrir framlagi Davíðs Oddssonar

Þorgerður Katrín vék einnig að Davíð Oddssyni, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins og Seðlabankastjóra í ræðu sinni. Hún sagði að  hans sterka sýn hefði leitt okkur í gegnum mikið umbreytingarskeið. „Þrátt fyrir að við höfum ekki alltaf verið sammála um alla hluti þá leyni ég því ekki að ég ber mikla virðingu fyrir hans dýrmæta framlagi ti lþeirrar hugarfarsbreytingar sem orðið hefur hjá þjóðinni."