Hlutabréfaverð í Origo lækkaði um 5,56% og Icelandair um 4,83%, í viðskiptum dagsins. Þá lækkaði Marel um nærri 3% og er komið undir 500 króna múrinn á hlut á ný, en hvert bréf félagsins kostar nú 488 krónur.

Líkt og undanfarnar vikur voru áberandi mest viðskipti með bréf í Marel, eða nærri 1,1 milljarður króna en heildarvelta með bréf allra félaga í Kauphöllinni nam 2,1 milljarði króna í 152 viðskiptum. Dagurinn í Kauphöllinni var í rauðari lagi, en hlutabréfaverð 13 félaga lækkaði í dag, og úrvalsvísitalan féll um 1,95%.

Hagar hækkuðu mest eða um 1,56% í 510 milljón króna viðskiptum. Hagar héldu kynningu í morgun þar sem upplýst var um að félagið hefði fest kaup á Reykjavíkur Apóteki en biði samþykkis Samkeppniseftirlitsins.