Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku sem áður var hluti af Hitaveitu Suðurnesja, segir lítið að gerast í frekari orkuframkvæmdum á Suðurnesjum um þessar mundir.

Kreppan með öllum sínum fjármögnunarvandræðum sé meginorsök þeirrar biðstöðu sem nú er.

„Það er afskaplega lítið að gerast og eiginlega ekki neitt. Það er þó verið að reyna að dunda við að ljúka því sem tekur mestan tíma eins og umhverfismat og einhverja hönnun. Það verða þó engar framkvæmdir fyrr en fjármögnun kemst á skrið,“ segir Júlíus.

Júlíus segir samt ljóst að framkvæmdir verði að komast í gang með haustinu ef takast eigi að standa við áform um að hefja orkuafhendingu til Álvers í Helguvík síðla árs 2011.