Ísland þarf að breyta lögum til að tryggja að orkufyrirtæki sem nýta náttúrauðlindir í almannaeigu til raforkuframleiðslu greiði ávallt markaðsverð fyrir slíka nýtingu. Þetta er niðurstaða ákvörðunar sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tók í dag.

Samkvæmt fréttatilkynningu á heimasíður stofnunarinnar hafa Íslensk stjórnvöld í fjölmörgum tilvikum veitt orkufyrirtækjum aðgang að náttúruauðlindum til að framleiða raforku úr vatnsafli eða jarðvarma. Engin íslensk löggjöf er um efni slíkra samninga. Hvorki er skýr lagaskylda til að fara fram á greiðslu markaðsverðs né opinber mælikvarði á hvernig ákvarða skuli endurgjald.

Til að tryggja megi sanngjarna og virka samkeppni á íslenska raforkumarkaðnum þurfa orkufyrirtæki að greiða markaðsverð fyrir nýtingu náttauruauðlinda. Setja þarf lög sem fela í sér að ávallt sé farið fram á greiðslu markaðsverðs þegar orkufyrirtækjum eru veitt réttindi til að nýta nátturauðlindir í almannaeigu. Til að ganga úr skugga um að aðilar njóti jafnræðis þurfa íslensk stjórnvöld auk þess að hafa skýra aðferðafræði um hvernig markaðsverð náttúruauðlinda verður ákvarðað .” segir Sven Erik Svedman forseti Eftirlitsstofnunar EFTA.

ESA leggur meðal annars til að sett verði lög á Íslandi til að tryggja að öll tilfærsla nátturauðlinda vegna raforkuframleiðslu fari fram á markaðsforsendum. Slík kvöð yrði bindandi fyrir bæði ríki og sveitarstjórnir. ESA kveður auk þess á um að íslensk stjórnvöld endurskoði alla gildandi samninga um nýtingu náttúruauðlinda til að tryggja að orkufyrirtæki greiði markaðsverð það sem eftir lifir af gildistíma samninganna.

Íslensk stjórnvöld hafa nú einn mánuð til að tilkynna ESA hvort þau samþykki umræddar tillögur. Ef íslensk stjórnvöld fallast ekki á tillögurnar getur ESA hafið formlega rannsókn á málinu.