Talsverð aukning verður í fjárfestingum Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækja næstu ár samkvæmt fjárhagsáætlun samstæðunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitunni.

Uppbygging vegna umhverfismála er áberandi en einnig efling veitukerfa fyrirtækisins, einkum á Vesturlandi. Áformað er að verja 10,3 milljörðum króna í fjárfestingar árið 2015 en að þær nema 6,4 milljörðum króna nú í ár.

Í tilkynningunni segir að með innleiðingu Plansins á fyrri hluta árs 2011 hafi komist jafnvægi í rekstur Orkuveitunnar. Markmið Plansins var að bæta sjóðstöðu fyrirtækisins um meira en 50 milljarða króna á árabilinu 2011 til og með 2016. Þar af eru um 30 milljarðar úr rekstrinum og 20 milljarðar með lánum frá eigendum og leiðréttingu gjaldskrár. Samkvæmt Orkuveitunni eru allir þættir Plansins á áætlun og hafa, ásamt öðrum aðgerðum, skilað betri sjóðstöðu en áætlað var.

Áhersla er lögð á niðurgreiðslu skulda um leið og að viðhalda tryggri lausafjárstöðu. Gert er ráð fyrir að eigið fé Orkuveitu Reykjavíkur hækki um u.þ.b. 7 milljarða króna á árinu 2015 og eiginfjárhlutfall verði 34,6% í árslok 2015.