Baggalútur efh. tapaði í fyrra tæpum 450 þúsund krónum, samanborið við hagnað upp á tæpar sjö milljónir króna árið áður. Rekstrartekjur félagsins námu á árinu 12 milljónum króna, samanborið við 16,7 milljónir króna árið áður. Stærstur hluti teknanna, eða um 9,4 milljónir króna, komu til vegna tónleikahalds en að sama skapi nam kostnaður við tónleikahald um 11,6 milljónum króna. Þar munar mestu um rúmlega 6,2 milljóna króna greiðslu til tónlistarmanna.

Bókfært eigið fé í árslok 2011 var um 10,4 milljónir króna. Í ársreikningi félagsins kemur fram að tekjur ársins 2010 reyndust vanáætlaðar um fjórar milljónir króna vegna greiðslna höfundalauna sem bárust á árinu 2011. Samanburðartölur í fyrri ársreikningi hafa verið leiðréttar til samræmis en Viðskiptablaðið greindi frá því í fyrra að félagið hefði hagnast um 2,9 milljónir króna á árinu 2010.