Þórólfur Árnason, forstjóri SKÝRR, var endurkjörinn formaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja - SUT - á aðalfundi í morgun en Þórólfur tók við formennsku SUT á síðasta ári af Eggerti Claessen.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins en SUT er hluti af þeim samtökum.

Þá voru þeir Guðmar Guðmundsson, fjármálastjóri TM Software, Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP og Stefán Jóhannesson, framkvæmdastjóri Þekkingar, endurkjörnir til næstu tveggja ára.

Fyrir sitja í stjórninni þau Daði Friðriksson, framkvæmdastjóri Tölvumiðlunar, Jón Ingi Björnsson, framkvæmdastjóri TrackWell Software og  Sigrún Eva Ármannsdóttir, framkvæmdastjóri Eskils, en þau voru kjörin í fyrra til tveggja ára.

Samtök upplýsingatæknifyrirtækja eru starfrækt undir Samtökum iðnaðarins en innan SUT eru fimmtíu fyrirtæki í upplýsingatækniiðnaði með á annað þúsund starfsmönnum.