Þórólfur Árnason, forstjóri SKÝRR, var kjörinn formaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja SUT á aðalfundi í morgun.

Þórólfur tekur við af Eggerti Claessen sem gegndi hlutverki formanns síðastliðin tvö ár.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SUT.

Þar kemur fram að á fundinum var meðal annars farið yfir stöðu fyrirtækja í greininni í tengslum við núverandi árferði.

„Menn eru auðvitað hugsi yfir stöðunni, en binda vonir við að upplýsingatæknifyrirtækin komi sterk út úr þeim þrengingum sem nú ríða yfir íslenskt efnahagslíf,“ segir Þórólfur Árnason nýkjörinn formaður í tilkynningunni.

Samtök upplýsingatæknifyrirtækja eru starfrækt undir Samtökum iðnaðarins en innan SUT eru um fimmtíu fyrirtæki í upplýsingatækniiðnaði með á annað þúsund starfsmönnum.