Þórólfur Matthíasson prófessor við viðskipta- og hagfræðideild HÍ vill að ríkisstjórnir Noregs og Íslands skipi sem fyrst nefndir til að kanna kosti þess og galla að taka upp myntsamstarf. Þetta kemur fram í grein eftir Þórólf sem birtist í norska viðskiptaritinu Dagens Næringsliv, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Þar segir að Þórólfur telji að það geti verið sterkur millileikur að taka upp gagnkvæma bindingu norsku og íslensku krónunnar í sex til tíu ár, eða þar til evruvæðing hafi átt sér stað. Hætta sé á að íslenska banka- og fjármálakerfið hverfi úr landi við núverandi ástand. Þórólfur telur að hægt sé að binda íslensku krónuna þeirri norsku á skömmum tíma og hann segir að Norðmenn eigi geysilega stóra gjaldeyrisvarasjóði og enginn reyni áhlaup á þá til að fella norsku krónuna.

Haft er eftir Þórólfi að Norðmenn myndu vilja býsna náið samstarf á milli ríkjanna og jafnvel sameiningu bankaeftirlits og fjármálaeftirlits landanna.

Blendin viðbrögð íslenskra stjórnmálamanna

Fréttablaðið ræðir við Árna Mathiesen fjármálaráðherra sem telur ólíklegt að myntsamstarf við Norðmenn geti hjálpað Íslendingum en útilokar ekkert fyrirfram.

Steingrímur J. Sigfússon formaður vinstri grænna og Guðni Ágústsson formaður Framóknarflokksins telja báðir að myntsamstarf við Noreg geti komið til greina, en Fréttablaðið hefur eftir Gunnari Svavarssyni þingmanni Samfylkingarinnar að slíkt samstarf við Norðmenn komi ekki til greina.