Aðalfundur íslenskrar landsnefndar Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) var haldinn miðvikudaginn 21. maí.

Á fundinum var ársreikningur landsnefndarinnar fyrir árið 2007 kynntur og litið yfir starfsemi ársins.

Þá urðu stjórnarformannsskipti. Einar Benediktsson, fyrrum sendiherra, sem gegnt hefur formennsku allt frá stofnun UNICEF á Íslandi í mars 2004, lét af embætti og við tók Þórunn Sigurðardóttir, fráfarandi listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi.

158 milljónir frá heimsforeldrum

Í máli Stefáns Inga Stefánssonar, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, kom fram að á síðasta ári hefði 231 milljón króna verið send til verkefna UNICEF í þróunarlöndunum.

Þar af hefðu 92 milljónum verið ráðstafað til uppbyggingar menntunar og heilsugæslu barna í Vestur-Afríkuríkinu Gíneu-Bissá og munar þar mest um stuðning fyrirtækjanna Baugs Group, FL Group og Fons við menntun.

Eins og undanfarin ár eru heimsforeldrar stærsti styrktaraðili UNICEF á Íslandi. Heimsforeldrar er hópur einstaklinga sem styrkir UNICEF með mánaðarlegu framlagi. Í lok árs 2007 voru heimsforeldrar orðnir 13.700 talsins og námu framlög þeirra samtals 158 milljónum.

Þórunn Sigurðardóttir tekur við formennsku af Einari Benediktssyni

Einari Benediktssyni voru þökkuð góð störf. „Starf Einars við stofnun og uppbyggingu UNICEF á Íslandi er ómetanlegt. Áratugareynsla hans af alþjóðlegu samstarfi hefur verið dýrmæt,“ sagði Stefán Ingi.

„Hann er hornsteinninn að árangri og vexti UNICEF á Íslandi og þannig hefur hann sett mark sitt á sögu þróunarhjálpar á Íslandi.“

Þórunni Sigurðardóttur var óskað velfarnarnaðar í nýju hlutverki innan stjórnarinnar en hún hefur verið stjórnarmeðlimur allt frá stofnun UNICEF á Íslandi.

Sagðist Stefán hlakka til að takast á við krefjandi verkefni í framtíðinni undir hennar formennsku.

Þær breytingar urðu einnig innan stjórnarinnar að Júlíus Vífill Ingvarsson hættir en inn koma Eiður Guðnason sendiherra og Kristín Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri.

Bakhjarlar styrktu rekstur um 20 milljónir

UNICEF á Íslandi var stofnað í mars 2004. Hlutverk landsnefndarinnar er að afla fjár meðal almennings og fyrirtækja á Íslandi til styrktar þróunarverkefnum UNICEF fyrir börn, sem og að vekja athygli á málefnum barna hvar sem þau eru stödd í heiminum.

Bakhjarlar UNICEF á Íslandi eru Baugur Group, FL Group, Fons, Glitnir og Samskip. Fyrirtækin styrktu rekstur UNICEF um samtals 20 milljónir króna á árinu 2007.

Auk þess hefur Prentsmiðjan Oddi styrkt landsnefndina rausnarlega með því að greiða niður prent- og hönnunarkostnað.