Eftirlit lögreglu hefur verið hert við heimili ráðherranna Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar og gæta menn þeirra allan sólarhringinn. Áður ók merktur lögreglubíll framhjá heimili Ögmundar með vissu millibili en nú mun einn bíll fyrir utan það daglangt.

RÚV greindi frá því í morgun að menn á vegum ríkislögreglustjóra hafi fylgt þeim Steingrími J. Sigfússyni og Ögmundi af ríkisstjórnarfundi í morgun. Fréttastofan bendir á að heimilis Steingríms sé gætt allan sólarhringinn.

Viðskiptablaðið hefur hvorki fengið upplýsingar um það hjá viðkomandi ráðuneytum né embætti ríkislögreglustjóra um ástæðu þess að lögregla fylgi þeim Steingrími og Ögmundi hvert fótmál. Einu svörin eru þau að þetta sé eitthvað sem lögregla meti hverju sinni.

Í kringum bankahrunið í október 2008 jókst öryggisgæsla við Stjórnarráðið til muna og gættu lögreglumenn og öryggisverðir ráðherra.

Fréttastofa RÚV bendir á að í maí í fyrra hafi verið ráðist á heimili Ögmundar og tvær rúður brotnar þegar grjóti var kastað í húsið. Ögmundur er innanríkisráðherra og heyra undir hann bæði lögregla og dómstólar.