*

föstudagur, 15. nóvember 2019
Innlent 27. maí 2019 13:11

Óska heimildar fyrir raforkusæstreng

Tæplega 400 milljarða króna fjármögnun fyrir lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands sögð langt komin.

Ritstjórn
Lagning sæstrengs yfir hafið kostar uppsetningu verksmiðju til að búa hann til fyrst, síðan lagningu yfir þúsund sjómílur til Íslands frá Bretlandi.
Aðrir ljósmyndarar

Breski fjárfestirinn Edi Truell þrýstir á bresk stjórnvöld um að veita samþykki sem myndi greiða fyrir lagningu raforkusæstrengs milli Íslands og Bretlands, en hann segir fjármögnun verkefnisins hafa verið tryggða.

Athygli vekur að Edi Truel var sá sami og ekki gat staðið við kaupsamning um kaup DC Renewable Energy á 12,7% í HS Orku fyrir um 9 milljarða króna sem Viðskiptablaðið sagði frá. Segir Truell verkefnið, sem ríkið þurfi ekkert að koma að kostnaði að, muni skapa hundruð starfa í norðurhluta Bretlands, ef stjórnvöld samþykkja verkefnið.

Eins og gefur að skilja gæti verkefnið haft áhrif á umræðuna hér heima um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem sagður ekki hafa neitt gildi á Íslandi nema ef sæstrengur tengi íslenskan orkumarkað við orkumarkað ESB.

Segir verkefnið ekki kosta ríkið til viðbótar þrátt fyrir niðurgreiðslur

„Eina sem Greg Clark [viðskiptaráðherra] þarf að gera til að skapa yfir 800 störf í Teesside er að samþykkja að skilgreina Atlantshafssæstrenginn sem orkuframleiðanda,“ segir Truell í The Times. „Það kostar stjórnvöld ekki einn eyrir.“

Fyrirtæki fjárfestisins þarf að vera skilgreint sem framleiðandi raforku utan Bretlands til að geta selt niðurgreidda raforku samkvæmt áætlun landsins um fjárhagsstuðning við endurnýjanlega raforku.

Áætlun Edi Truell er að safna um 2,5 milljörðum punda, andvirði um 393 milljarða íslenskra króna, frá stofnanafjárfestum, byggja verksmiðju til að framleiða sæstrenginn, og síðan leggja hann um 1000 sjómílur yfir hafið til Íslands svo íslenskar háhita- og fallvatnsvirkjanir geti selt raforku til Bretlands.

Segir Truell að JP Morgan sé þegar búið að tala við 25 líklega fjárfesta í verkefninu, sem unnið hefur að verkefninu síðan 2015. Segir hann að með því að senda rafstrauminn á mjög hárri spennu, þá tapist einungis um 5% af rafmagninu á leiðinni.

Fyrrum aðstoðarmaður Boris Johnson

Samkvæmt skuldbindingum Bretlands, verða orkuframleiðendur að tryggja að ákveðið hlutfall orkunnar sem þeir selja sé frá endurnýjanlegum orkuauðlindum, en það veldur bæði minni útblæstri koldíoxíðs, sama efnisins og öll dýr og menn anda frá sér, en hækkar einnig verð til neytenda.

Edi Truell er fyrrum ráðgjafi Boris Johnson, þingmanns og fyrrum utanríkisráðherra og borgarstjóra London, sem nefndur er sem mögulegur arftaki Theresu May sem forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins.