„Ég var ráðinn hingað til að sjá um tæknimálin, forrita kerfið og láta þetta ganga, en hér erum við að þróa alveg nýja þjónustu, sem er lausn fyrir vefverslanir til að koma pökkum til viðskiptavina, í sumum tilfellum allan sólarhringinn," segir Hreinn Gústavsson, nýr tæknistjóri hjá Dropp.

„Mér leist gríðarlega vel á þessa hugmynd um að gera afhendingar á vörum sem keyptar eru á netinu þægilegri þegar ég hitti Hrólf Andra Tómasson framkvæmdastjóra. Nærþjónusta eins og Dropp býður upp á er framtíðin þegar við horfum á þróunina til að mynda í Bretlandi og á hinum Norðurlöndunum þar sem netverslun er meiri en hér. Þar er orðið mjög algengt að fólk versli á netinu og sæki á afhendingarstað nálægt vinnu eða heimili."

Síðustu ár starfaði Hreinn hjá Já, en félagið seldi á dögunum appið Leggja, sem Hreinn seldi félaginu í árslok 2017, til sænska risans í bílastæðalausnum, EasyPark. „Ég er einfaldlega bara forritari, lærði svokallaða kerfisfræði í háskóla, en það er tveggja ára nám. Ég hætti áður en ég kláraði bachelor því ég fékk vinnu hjá Vodafone eftir að hafa verið að gera lokaverkefni hjá þeim, en þá var fyrsta barnið á leiðinni og hef ég verið að forrita síðan," segir Hreinn.

„Við félagi minn, Vernharður Reynir Sigurðsson, stofnuðum síðan Stokk Software árið 2007, samhliða vinnu og gerðum meðal annars greiðslukerfið fyrir Löður, og upp úr því ákváðum við að gera Leggja sem fór í loftið 2008. Móttökurnar voru fljótt mjög góðar svo þegar það var svo orðið nógu stórt og við sáum að við gætum lifað á þessu, þá fengum við þriðja félaga okkar, Helga Pjetur með okkur að búa til öpp og selja fyrirtækjum þau. Við vorum þá að vinna hjá Nova og ákváðum að fara á fullt í þetta. Fengum við fljótt stóra viðskiptavini eins og N1 og Domino´s, svo fljótlega urðum við stærsta fyrirtækið í gerð smáforrita á Íslandi."

Síðar skiptu þeir félagar liði og Hreinn eignaðist Leggja appið einn í ársbyrjun 2017. „Þá vorum við búnir að stofna atvinnuleitarappið Alfreð, og til að mynda Be Iceland sem Wow air keypti af okkur," segir Hreinn. Eiginkona Hreins er Hrafnhildur Eik Skúladóttir tannlæknir og eiga þau saman þrjú börn. „Þau eru 17 að verða 18, 11 að verða 12 og 8 ára, en þegar ég er ekki í vinnunni eða að skutla og sækja spila ég blak. Konan dró mig fyrst á námskeið í strandblaki en nú yfir veturinn spilum við með Blakfélagi Hafnarfjarðar. Það er mjög gott eftir langan vinnudag að fara í íþróttir, gleyma öllu, öskra og láta öskra á sig og fá þannig útrás."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .