Ferðaþjónustan er meðal höfuðatvinnuvega landsins, sagði Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar í dag.  „Í fyrra komu í fyrsta sinn yfir 500 þúsund ferðamenn til landsins," sagði hann.

„Ferðaþjónustureikningar Hagstofu Íslands, sem ég hef ákveðið að þróaðir verði áfram, sýna svart á hvítu að ferðaþjónustan er orðin meðal höfuðatvinnuvega landsins. Og eftir banka- og gjaldeyrishrun er hún meðal þeirra þriggja atvinnuvega sem helst eru bundnar vonir við í tekju- og gjaldeyrissköpun fyrir þjóðina."

Össu sagði að það væri staðreynd að á föstu verðlagi hefði aldrei verið veitt meira fé til ferðamála af hálfu Alþingis heldur en á yfirstandandi ári. „Ríflega milljarði króna er varið til ferðamála í ár og hafa því bæst við, reiknað á verðlagi yfirstandi árs, um 400 milljónir króna frá árinu 2007. Strax í fyrra var aukningin 48% í heild og með sömu reikningsaðferð er raunaukningin frá 2008 til 2009 12.4%."