Héraðsdómur í Seattle í Bandaríkjunum hefur úrskurðað að brotið hafi verið á tveimur einkaleyfum í eigu Generation II, dótturfélags Össurar. Fyrirtækið Medical Technology Inc. framleiddi og seldi hnjáspelkur undir merkjum Bledsoe Brace System sem brutu gegn umræddum einkaleyfum. Kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að um ásetningsbrot hafi verið að ræða og úrskurðaði 3,4 milljónir dala í bætur. Niðurstaðan er háð ákvörðun alríkisdómara og eins gæti verjandi áfrýjað dómnum. Það er því of snemmt að segja til um hvort Össur hafi ábata af málaferlunum.

Össur hefur áður átt í málaferlum til varnar einkaleyfum sínum. Fyrrum undirverktaki Össurar hóf fyrir nokkrum árum framleiðslu á gervifót sem fór frjálslega með einkaleyfi Össurar. Eftir löng og kostnaðarsöm málaferli endaði það mál með dómsátt og samningi um notendaleyfi árið 2003. Að mati Greiningar Íslandsbanka er nær öruggt að Össur þurfi af og til að ráðast í málaferli til varnar einkaleyfum sínum. Slíkt sé ennþá líklegra eftir því sem vörur félagsins byggja á flóknari tækni og fleiri einkaleyfum.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.