Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, hefur ákveðið að ráðstafa 100 milljónum króna af fé byggðaáætlunar 2007 – 2009 til þriggja þróunarverkefna í ferðaþjónustu.

Verkefnin snúa að þremur sviðum; í fyrsta lagi þróun í menningartengdri ferðaþjónustu; í öðru lagi auknum gæðum og vöruþróun í ferðaþjónustu og í þriðja lagi að matföngum úr héraði og áframhaldandi þróun viðfangsefnisins „Beint frá býli”.

Ferðamálastofa mun hafa umsjón með þróunarverkefnunum í samvinnu við IMPRU á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og verður framkvæmd og útfærsla í höndum stofnana.

Næstu skref eru að mynda samstarfshóp væntanlegra framleiðenda, samtaka í ferðaþjónustu, og fulltrúa úr stoðkerfi atvinnu- og iðnþróunar til að vinna að því að þroska enn frekar hugmyndir um framleiðslu og sölu beint frá býli. Verkefninu er ætlað að ná yfir þriggja ára tímabil 2008, 2009 og 2010.