Samkeppniseftirlitið telur Osta- og smjörsöluna hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína gagnvart Mjólku ehf, segir í tilkynningu frá stofnuninni, og þannig brotið gegn samkeppnislögum.

Samkeppniseftirlitið beinir tilmælum til landbúnaðarráðherra um að hann beiti sér fyrir breytingum á ákvæðum búvörulaga sem hindra samkeppni og mismuna fyrirtækjum í mjólkuriðnaði og beiti sér fyrir því að fella niður tolla á mjólkurdufti í því skyni að greiða fyrir samkeppni í mjólkuriðnaði.

Þegar Mjólka hóf störf á síðasta ári með framleiðslu á fetaosti þurfti fyrirtækið að kaupa mjólkurduft hjá Osta- og smjörsölunni. Tvenns konar verðlagning hefur verið á mjólkurdufti, annars vegar hið hærra verð til fyrirtækja í mjólkuriðnaði og hins vegar lægra verð til fyrirtækja í annarri matvælaframleiðslu.

Mjólku var gert að greiða hið hærra verð fyrir duftið, en annað fyrirtæki í ostaframleiðslu, Ostahúsið, hafði hins vegar verið látið greiða hið lægra verð vegna sinnar framleiðslu um margra ára skeið. Þetta varð tilefni þess að Mjólka kvartaði til Samkeppniseftirlitsins yfir mismunun Osta- og smjörsölunnar.

Osta- og smjörsalan brást við með þeim hætti að hækka verðið á mjólkurdufti til Ostahússins og bar við mistökum starfsmanna fyrirtækisins. Með því taldi fyrirtækið að jöfnuð væri samkeppnisstaða Mjólku og Ostahússins.

Osta- og smjörsalan er í einokunarstöðu við sölu á mjólkurdufti hér á landi, enda koma háir tollar á mjólkurdufti í reynd í veg fyrir innflutning á duftinu. Mjólka verður af þessum sökum að kaupa duft af Osta- og smjörsölunni, en það fyrirtæki ásamt eigendum þess (mjólkursamlögin) eru helstu keppinautar Mjólku.

Vegna stöðu Osta- og smjörsölunnar, segir Samkeppniseftirlitið að sérstaklega rík skylda hvíli á fyrirtækinu að mismuna ekki viðskiptavinum sínum. Með vísan til þess telur Samkeppniseftirlitið að Osta- og smjörsalan hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína þegar fyrirtækið seldi Mjólku annars vegar og Ostahúsinu hins vegar mjólkurduft á misháu verði. Þannig braut Osta- og smjörsalan gegn samkeppnislögum, segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.