Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir í viðtali við Viðskiptablaðið breytingar á lögum um stjórn fiskveiða leggist illa í hana og telur reyndar að ekki hafi verið sýnt fram á nauðsyn þess að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu. "Allra síst við núverandi aðstæður, þar sem óstöðugleiki ríkir í efnahagsmálum. Spurningin er, hvaða fyrirtæki eru það sem lifa af breytingar? Svarið er að það eru allra stærstu og sterkustu fyrirtækin sem lifa þær af en minni fyrirtækin verða í vandræðum. Var það ætlun stjórnarflokkanna? Þetta blasir við. Ég er sjálf á því að það sé algjör óþarfi að breyta kerfinu og að það eigi að láta sjávarútveginn í friði, ekki síst á tímum þegar rekstrarumhverfið er gott eins og víða er núna í sjávarútvegi. Það er svo annað að stjórnvöld hafa ekki sýnt neinn vilja til þess að ná sáttum um þessi mál, þrátt fyrir niðurstöðu sáttanefndar. Heilt yfir finnst mér stjórnvöld vera að gera alltof víðtækar breytingar á grunnstoðum samfélagsins og stjórnarsáttmáli flokkanna ber það með sér. Til dæmis finnst mér margir stjórnarliðar tala með þeim hætti að eignarrétturinn sem slíkur sé eitthvert vandamál. Við þetta er ég hrædd og tel að það geti stórskaðað efnahagslegan styrk landsins á versta tíma.“

Verður að efla fjárfestingar

Það hefur oftar en ekki verið horft til lífeyrissjóðanna þegar kemur að fjárfestingum eftir hrunið. Yfir 40% af eignum þeirra eru nú opinberar skuldir. Hvað finnst þér um það hvernig fjárfestingarumhverfið er í landinu? „Það verður að efla fjárfestingar í hagkerfinu og ég tel að algjör forsenda fyrir skynsamlegri stýringu hjá lífeyrissjóðunum sé endurreisn hlutabréfamarkaðarins. Kauphöllin getur haft mikil áhrif hagkerfið, ekki síst eins og staða mála er núna. Lífeyrissjóðirnir eru svolítið ríki í ríkinu og lokaðir fyrir sjóðsfélögum. Það mætti auka gagnsæi og styrkja sambandið milli lífeyrissjóðanna sjálfra og sjóðsfélaga. Grundvallaratriðið er síðan að jafna réttindi milli almenna vinnumarkaðarins og opinberra starfsmanna. Það er ríkisábyrgð á tapi lífeyrissjóða opinberra starfsmanna og í því árferði sem hér hefur ríkt, þar sem réttindi sjóðsfélaga á almennum vinnumarkaði hafa verið skert mikið, þá er ósamræmið hrópandi. Þetta óréttlæti verður að laga enda stenst þetta ekki neina skoðun og grefur undan annars sterku og öflugu lífeyrissjóðakerfi.“

Ítarlegt viðtal er við Ólöfu í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak undir liðnum tölublöð hér að ofan.