Óttar Pálsson hefur stýrt Straumi síðan félagið var tekið yfir af Fjármálaeftirlitinu í mars á síðasta ári. Nú hafa nauðasamningar félagsins verið samþykktir. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá þá verður Straumi skipt í tvennt, eignarhaldsfélag og fjárfestingarbanka, Straum. Við breytingarnar nú mun Óttar yfirgefa eignaumsýslufélagið og starfa hjá fjárfestingarbankanum.

Óttar telur að möguleikar til vaxtar séu til staðar og að félagið muni fara stækkandi. „Þegar fram líða stundir sjáum við fyrir okkur að starfsmenn hans verði um 45 talsins. Það mun þó ekki vera svo frá fyrsta degi en ljóst er að við þurfum að bæta við fólki til að koma rekstrinum af stað,“ segir Óttar.

Hann ætlar sér ekki að vera hjá félaginu að eilífu, enda er í hans huga um verkefni að ræða. „Ég hef alltaf sagt að ég tók við starfinu sem verkefni og þegar endurskipulagningu er lokið og félagið komið í örugga höfn mun ég yfirgefa það,“ segir Óttar og bætir við að hann sjái fyrir sér að fjárfestar komi að félaginu í framtíðinni.

-Nánar í Viðskiptablaðinu