Ástæða þess að ríki og borg tóku á sig ábyrgð á tónlistarhúsinu var ótti við fjöldagjaldþrot verktaka. Ákvörðun menntamálaráðherra og borgarstjóra byggðist m.a. á upplýsingum er fram komu í minnisblaði frá Austurhöfn.

„Fyrst er rétt að nefna að framkvæmdir gætu stöðvast eða frestast með mismunandi hætti. Ef Austurhöfn, ríki og borg, aðhefðust ekkert og létu verkið þannig stöðvast myndi Portus fara í þrot og tjónið í fyrsta umgang aðallega lenda á verktökum. Er mjög líklegt að aðalverktakinn ÍAV og allstór hópur undirverktaka yrði gjaldþrota.“

Þetta segir í minnisblaði sem Austurhöfn tók saman fyrir ríki og borg um afleiðingar stöðvunar framkvæmda við Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu. Minnisblaðið er frá 5. janúar 2009. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, tóku að lokum ákvörðun um að ríki og borg myndu ábyrgjast að fullu áframhaldandi byggingu hússins og rekstur til framtíðar.

Austurhöfn, sem er eigandi Hörpunnar, er í eigu íslenska ríkisins og borgarinnar. Ríkið á 54% en borgin 46%. Harpa er í eigu félagsins Portusar hf, dótturfélags Austurhafnar. Það félag var áður í eigu Landsafls (50%) og Nýsis (50%) og var áformað að stofnkostnaður hússins yrði greiddur af því félagi. Hann var áætlaður 12,5 milljarðar króna miðað við samning sem undirritaður var 9. mars 2006, þegar ákveðið var að ganga til samninga við Portus. Ríki og borg, í gegnum Austurhöfn, áttu síðan að leggja húsinu til 608 milljónir króna árlega til reksturs. Hið árlega framlag er nú áætlað ríflega 800 milljónir króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.