Breska bókaforlagið Orenda Books hefur tryggt sér útgáfuréttinn á óútgefinni glæpasögu Ragnars Jónassonar, Náttblindu, sem gerist á Siglufirði og er væntanleg á íslensku í október.

Jafnframt keypti forlagið breska útgáfuréttinn á fyrstu bókinni í Siglufjarðarsyrpu Ragnars, Snjóblindu. Gert er ráð fyrir að Snjóblinda komi út á ensku strax á næsta ári og Náttblinda í kjölfarið.

„Það er frábært að glæpasögur Ragnars komi nú út í enskri þýðingu, en það er sá markaður í heiminum sem hvað erfiðast er fyrir erlenda höfunda að komast inn á. Ekki síður er það afar fátítt að breskt forlag kaupi réttinn að óútgefinni skáldsögu frá Íslandi,“ segir Pétur Már Ólafsson hjá Veröld, útgefanda bókanna á Íslandi.

Gengið var frá sölunni á bókamessunni í Frankfurt, en bækur úr Siglufjarðarsyrpu Ragnars hafa áður komið út í þýskri þýðingu.