Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir mistök hafa verið gerð varðandi fjárúthlutanir til þjóðkirkjunnar og annarra skráðra trúfélaga landsins. Í samtali við Fréttablaðið segir hann að ekki hafi verið greiddar neinar verðbætur með úthlutunum sóknargjalda síðan eftir bankahrunið, eins og gilt hefur hjá öðrum opinberum stofnunum. Ögmundur segir að ljóst sé að skorið hafi verið meira niður hjá þjóðkirkjunni en öðrum opinberum stofnunum.

„Það er veruleikinn,“ segir Ögmundur. „Hvað sóknargjöldin áhrærir þá sættu þau niðurskurði, en hann varð meiri fyrir þá sök að engar verðbætur komu síðan til eins og gerist í opinberri starfsemi sem sætir niðurskurði og aðhaldi.“ Ráðherra segir að málið sé nú til skoðunar hjá ráðuneytinu, en ljóst sé að mistökin verði ekki leiðrétt í einu vetfangi.