Undanfarnar vikur hefur krónan heldur verið að veikjast. Þann 6. september síðastliðinn gengi krónunnar það sterkasta á árinu og var 204,74. Í síðustu viku endaði gengið í 207,37. Þetta segir í vikulegum markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa.

Bent er á að veikingin sé mjög óveruleg og nær sé að tala um stefnulausa gengisþróun eða flata gengisþróun.

Seðlabankinn sáttur

„Líklegt er að seðlabankinn sé nokkuð sáttur við núverandi stöðu krónunnar, að hún sveiflist á þröngu bili á gildum sem tryggja góðan afgang af viðskiptum með vörur og þjónustu við útlönd. Áhugavert er að velta fyrir sér hver viðbrögð seðlabankans yrðu ef aðstæður þróuðust á þann veg að krónan ætti að styrkjast,“ segir í markaðsfréttunum.

Aðstæður fyrir styrkingu gætu skapast við verulegt innflæði vegna stórframkvæmda, við farsæla lausn í Icesave-deilunni eða árangursríkrar lántöku ríkissjóðs erlendis, að því er segir í markaðsfréttum.

Þá er spurt hvort seðlabankinn myndi láta krónuna styrkjast eða hvort hann myndi fara í frekari kaup á gjaldeyri og koma þar með í veg fyrir styrkinguna við slíkar aðstæður.

„Kaupin má auðveldlega rökstyðja á þann hátt að SÍ væri að styrkja þann hluta gjaldeyrisforðans sem ekki er tekinn að láni.“