Hlutabréfabréfavísitölur á Wall Street réttu úr kútnum þegar markaðir opnuðu vestanhafs í gær eftir að hafa lækkað skarpt við lok viðskipta á þriðjudaginn. Mikil óvissa ríkir þó enn á meðal fjárfesta og hlutabréfamarkaðir eru viðkvæmir fyrir öllum neikvæðum fréttum sem berast.

Lækkanir á hlutabréfum í Bandaríkjunum á þriðjudaginn - hinar mestu á einum degi í þrjár vikur - mátti einkum rekja til vaxandi svartsýni bandarískra neytenda, nýrra hagtalna sem sýndu mestu lækkanir á fasteignaverði í tvö ár og auk þess viðbragða fjárfesta við orðum seðlabankans þar í landi, sem jók á efasemdir sumra um hvort bankinn muni hefja vaxtalækkunarferli sitt á næstu vikum. Í kjölfarið fylgdu töluverðar lækkanir á hlutabréfamörkuðum í Asíu - Nikkei-hlutabréfavísitalan lækkaði um 1,69% - og í Evrópu þegar markaðir opnuðu þar í gærmorgun, en þegar líða tók á daginn gengu lækkanirnar til baka og höfðu hlutabréf hækkað lítillega við lokun kauphalla.

Seðlabanki Bandaríkjanna birti á mánudaginn fundargerð stjórnar bankans frá síðustu stýrivaxtaákvörðun þann 7. ágúst, þar sem meðal annars kemur fram að bankinn hafi vanmetið hversu umfangsmikil vandræðin á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum í raun væru, en þau áttu rætur sínar að rekja til vanskila tengdum áhættusömum fasteignalánum (e. subprime) í Bandaríkjunum. Í stað þess taldi seðlabankinn mikilvægara að einblína fremur á undirliggjandi verðbólguþrýsting í bandaríska hagkerfinu og minnkandi framleiðni.

Stýrivaxtahækkun á evrusvæðinu talin ólíkleg
Fundargerðin leiðir það einnig í ljós að þrátt fyrir að forsvarsmenn bankans hafi gert sér grein fyrir því að áframhaldandi ókyrrð á fjármálamörkuðum gæti síðar meir kallað á aðgerðir af hálfu bankans, þá kaus hann engu að síður að bregðast ekki við ástandinu fyrr en tíu dögum seinna - þegar seðlabankinn lækkaði vexti á skammtímalánum úr 6,25% í 5,75%. Enda þótt fundargerðin hafi ekki orðið til þess að fullvissa fjárfesta um að von sé á stýrivaxtalækkun, þá er enn engu að síður mikill meirihluti á þeirri skoðun að Seðlabanki Bandaríkjanna ætli sér að lækka vexti um 25 punkta þann 18. september næstkomandi - en hvað gerist eftir það treysta fáir sér að segja til um.

Í Evrópu reyna fjárfestar hins vegar að spá fyrir um hvort seðlabankinn muni ráðast í hugsanlega stýrivaxtahækkun - fremur en lækkun - líkt og fastlega hafði verið reiknað með fyrir mánuði síðan. Nú eru taldar litlar sem engar líkur á að eitthvað verði af því. Og það er Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóra Evrópu, sem hefur nánast tekist að fullvissa fjárfesta um það, segir Monica Houston-Waesch, pistlahöfundur hjá Dow Jones-fréttaveitunni. Í ræðu sem Trichet flutti á efnahagsráðstefnu í Búdapest á mánudaginn var sérstaklega eftir því tekið þegar hann sagði að yfirlýsing bankans eftir síðustu stýrivaxtaákvörðun 2. ágúst síðastliðinn hefði verið birt áður en áhyggjur af vaxandi lausafjárþurrð á fjármagnsmörkuðum komu fram á sjónarsviðið. Markaðsaðilar telja núna minna en 20% líkur á stýrivaxtahækkun.

Merril Lynch lækkar verðmat á þremur félögum
Financial Times hefur eftir Seth Waugh, framkvæmdastjóra hjá Deutsche Bank í Bandaríkjunum, að þrátt fyrir snarpa niðursveiflu á mörkuðum vestanhafs á þriðjudaginn, telji hann að "við séum við upphaf endaloka krísunnar" á fjármálamörkuðum. Að sögn Waugh á sér stað gríðarmikil leiðrétting á hlutabréfaverði, en hins vegar myndu aðgerðir Seðlabanka Bandaríkjanna - bæði vaxtalækkanir á skammtímalánum og fjármagnsinnspýting bankans inn á markaði undanfarnar vikur - koma í veg fyrir frekari áföll á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum.

Því fer þó fjarri að fjármálaskýrendur telji að því flökti sem einkennt hefur fjármálamarkaði síðustu vikur sé lokið. Þrálát óvissa getur leitt til vítahrings sem elur af sér enn frekari óvissu á meðal fjárfesta á mörkuðum; snarpar lækkanir verði á alþjóðamörkuðum um leið og neikvæðar fréttir berast af fleiri vandræðum á bandaríska fasteignalánamarkaðinum, vogunarsjóðum sem hafa tapað fjármunum á stöðutöku í áhættusömum fasteignalánum og vaxandi lausafjárþurrð á fjármagnsmörkuðum. Slíkt ástand mun áfram gera það að verkum að óvissa og taugatitringur mun einkenna fjármálamarkaði um allan heim næstu misseri, að mati sérfræðinga. "Áhyggjur af hinu óþekkta er fjárfestum efst í huga um þessar mundir," segir John Sinn, aðalhagfræðingur Lehman Brothers, í samtali við International Herald Tribune.

Nýjustu áhyggjur fjárfesta af vandræðum tengdum áhættusömum fasteignalánum spruttu upp í gær þegar verðbréfamiðlarar bandaríska fjárfestingarbankans Merril Lynch lækkuðu verðmat sitt á þremur félögum, sem eru með stöðutöku í slíkum lánum - Bear Stearns, Lehman Brothers og Citigroup. Það jók síðan enn á áhættufælni fjárfesta þegar Merill Lynch varaði við því í gær að lausafjárþurrð á fjármagnsmörkuðum gæti dregið töluvert úr hagnaði banka.