Samband íslenskar sveitarfélaga hefur vakið athygli sveitarstjórna og kjörstjórna á því að samkvæmt kosningalögum skulu sveitarstjórnarkosningar fara fram laugardaginn 29. maí á næsta ári. Enn er þó óvissa uppi um fyrirkomulag kosninganna.

Ástæðan óvissunnar er sú að ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna sem felur í sér að tekin verði upp ný kosningaraðferð, þ.e. persónukjör af írskri fyrirmynd. Var lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þess efnis dreift á Alþingi í síðustu viku. Eins hyggst ríkisstjórnin leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um stjórnlagaþing. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að kosning fulltrúa á stjórnlagaþing fari fram samhliða sveitarstjórnarkosningum.

Fulltrúar sambands íslenskra sveitarfélaga komu að gerð beggja frumvarpa en stjórn sambandsins hefur á þessu stigi ekki tekið afstöðu til þeirra. Þær breytingar sem felast í fyrrnefnda frumvarpinu eru taldar auka nokkuð kostnað sveitarfélaga við framkvæmd sveitarstjórnarkosninga. Áætlað er að sú kostnaðaraukning geti numið á bilinu níu til fjórtán milljónum króna.