Óvissa gæti ríkt um hvort vaxtalækkunarferlinu verður haldið áfram eða hvort vextir muni hækka á næstunni til þess að halda verðbólgu við markmið og gera Seðlabankanum kleift að hefjast handa við afnám gjaldeyrishafta. Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, á fundi með blaðamönnum í Seðlabankanum fyrir stuttri stund.

Hann útilokar ekki að vextir muni lækka áfram en segir þó ekkert öruggt í þeim efnum.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem send var í morgun segir að þar sem horfur eru á að verðbólga verði áfram við verðbólgumarkmiðið og í ljósi þess að vextir eru í sögulegu lágmarki ríkir aukin óvissa um í hvaða átt næstu vaxtabreytingar verða. "Áætlanir um afnám hafta á fjármagnshreyfingar skapa einnig óvissu til skemmri tíma.“