Óvissa eins og sú sem er uppi núna þegar beðið er eftir tillögum ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingar hefur alltaf áhrif á verðbólgu og verðbólguvæntingar. Þetta segir Styrmir Guðmundsson, sérfræðingur hjá Júpiter.

Veltan á skuldabréfamarkaði hefur verið gríðarlega mikil síðastliðna fimm daga. Klukkan 13 í dag nam velta dagsins rétt tæplega 13,4 milljörðum króna. Styrmir bendir á að óvissan hafi áhrif á allan skuldabréfamarkaðinn, bæði á verðtryggð og óverðtryggð skuldabréf.

„Menn hafa verið að fara út af markaðnum af ótta við að það komi einhverjar lausnir sem verða ígildi peningaprentunar eða munu auka framboð á markaðinn með beinum eða óbeinum hætti,“ segir Styrmir. Hann bendir á að það sé ekki útilokað að álögur á ríkissjóð aukist þó að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi verði að berorðir í því að svo verði ekki. „Markaðurinn útilokar ekkert,“ segir Styrmir.

Styrmir bendir álagið á skuldabréfamarkaðinn muni síst minnka eftir að tillögurnar hafa verið kynntar. Eftir á verði væntanlega einhver ruðningsáhrif af tillögunum en þau áhrif muni ráðast af því hvernig þær verða útfærðar. „Ef farið verður í eignasölu eða peningaprentun eða einhverja aðra fjármögnun upp á 50-100 milljarða eða meira að þá hefur það áhrif og setur þá taktinn í því sem koma skal,“ segir Styrmir. Eftir það muni menn svo væntanlega snúa sér að þrotabúum bankanna með aðgerðir varðandi afnám fjármagnshafta. Óvissan sé síst liðin þegar tillögurnar hafa verið kynntar.