Önnur breyting sem lögð er til í frumvarpdrögum til breytinga á samkeppnislögum er að veltumörk fyrirtækja fyrir tilkynningarskyldan samruna muni hækka um helming, það er að heildarvelta verði yfir þrjá milljarða króna og að ársvelta a.m.k. tveggja samrunaaðila verði 300 milljónir króna eða meiri. Veltumörkin hafa ekki hækkað frá 2008.

Afgreiðsla samrunamála er háð lögbundnum tímafrestum hjá SKE. Undanfarin ár hefur verið mikið um samruna á mörkuðum og þeir hafa verið umfangsmeiri en fyrri ár. Það hefur haft í för með sér að sífellt meiri tími SKE fer í að sinna samrunamálum en samkvæmt ársskýrslu eftirlitsins til OECD var um 40% vinnustunda varið í þau verkefni. Eðli málsins samkvæmt hafa önnur verkefni verið látin mæta afgangi á meðan.

„Mörg fyrirtæki, jafnt stór sem smá, hafa kvartað yfir því að tilkynningum þeirra um meint samkeppnislagabrot sé ekki sinnt á meðan. Rannsóknir á slíkum málum vilja af sömu ástæðu dragast á langinn, stundum í hátt í áratug. Slík eftir á skoðun á markaði þjónar litlum tilgangi enda breytast aðstæður hratt á markaði og þörf á að grípa hratt inn í. Vonandi stuðla hærri veltumörk að einhverjum breytingum hér á,“ segir Hörður Felix Harðarson lögmaður.

„Við teljum málefnalegt að veltumörkin séu skoðuð reglulega og eftirlitið hefur ekki lagst gegn hækkun þeirra. Það er eitt sjónarmið að mögulega stuðli hækkun þeirra að fækkun mála og þar með meiri skilvirkni. Enn mikilvægara er hins vegar að meta undirliggjandi verndarhagsmuni, þ.e. hvort auki hættuna á því að það renni í gegn samrunar sem skaða samkeppni og efnahagslífið,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Spurður um hve mörg samrunamál hefðu komið inn á borð eftirlitsins ef veltumörkin hefðu verið hærri segir hann að það hefði mögulega leitt til um 15% fækkunar mála en smærri málin taki að jafnaði minni tíma. Ráðstöfunartími í samrunamál hefði því ekki lækkað í sama hlutfalli.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .